Fjölbrautaskóli Suðurlands tefldi fram firnasterku liði í Gettu betur undir lok síðustu aldar, þar sem ein af kjölfestunum var Eyrbekkingurinn Herdís Sigurgrímsdóttir.
Herdís vakti mikla athygli fyrir skelegga frammistöðu en ekki síður þar sem mjög fáar stelpur kepptu í Gettu betur á þessum tíma. Fimmtán árum eftir að Herdís útskrifaðist úr FSu, árið 2015, var settur kynjakvóti og allir skólar þurftu að tefla fram bæði kvenkyns og karlkyns keppendum.
„Það gleður mig mikið að sjá hvernig kynjahlutföllin eru í Gettu betur í dag. Á sínum tíma vorum við Inga Þóra Ingvarsdóttir úr Menntaskólanum við Hamrahlíð svo mikið raritet að við lentum í viðtölum sýknt og heilagt. Margir héldu að stelpur hefðu ekki áhuga en það var svo sannarlega ekki raunin. Í dag eiga stelpur auðveldara með að sjá sig í þessu hlutverki. Að þær eigi erindi,“ segir Herdís í samtali við sunnlenska.is.
FSu hefur alltaf farið þetta á gleðinni
Herdís býr í dag í Stafangri í Noregi og vinnur að loftslags- og umhverfismálum hjá héraðsyfirvöldum í Rogalandi. Hún hefur búið mikið erlendis og hefur ekki náð að fylgjast náið með keppninni en það gladdi hennar gamla Gettu betur hjarta að sjá að Fjölbrautaskóli Suðurlands var kominn í úrslit.
„Já, það er geggjað. Mikið hlýtur að vera gaman að vera þau núna. Ég ætla að sjálfsögðu að fylgjast með á föstudaginn. Þarna mæta klassískir andstæðingar úr MR, alltaf sterk og vel undir búin. En munið pressuna sem hlýtur að vera á MR-ingunum. FSu hefur alltaf farið þetta á gleðinni og ég ráðlegg liðinu að gera það líka í úrslitunum og njóta augnabliksins, hvernig sem fer,“ segir Herdís.
Herdís komst tvisvar í sjónvarpið á sínum Gettu betur ferli og þar af alla leið í undanúrslit árið 1999 með liðsfélögum sínum; Eyjólfi Þorkelssyni og Sigursveini Sigurðssyni, núverandi aðstoðarskólameistara. Það er þó ekki undanúrslitarimman sem stendur uppúr í minningunni hjá Herdísi.
„Mér fannst alltaf gaman að taka þátt, það var oft ólýsanleg stemning og sérstaklega í átta liða úrslitunum árið 1999. Þá mættum við Menntaskólanum á Egilsstöðum og keppnin var tekin upp í skólanum á Selfossi í miðju Flóafári – og við unnum! Það var á við góðan Suðurlandsskjálfta,“ segir Herdís að lokum.
TENGDAR FRÉTTIR:
Sveinn Helgason: Komu FSu á kortið
Brúsi Ólason: „Röngu svörin ásækja mig“
Eyjólfur Þorkelsson: Sé ekki eftir sekúndubroti sem ég varði í FSu
Elín, Ásrún og Heimir: Engin pressa fyrir úrslitakvöldið