Í sumar opnaði Almar bakari við Larsenstræti á Selfossi. Þann 4. október næstkomandi mun svo annað Almars bakarí opna á Hellu.
„Ég hafði talað við Gylfa hjá JÁVERK fyrir nokkrum árum varðandi Larsenstræti en það hafði legið í dvala hjá okkur þangað til í byrjun febrúar að þessi hugmynd vaknaði hjá mér. Ég tel að þetta sé framtíðar staðsetning varðandi verslun á Selfossi,“ segir Almar Þór Þorgeirsson, bakari, í samtali við sunnlenska.is.
„Okkur hefur verið rosa vel tekið síðan að við komum aftur og erum mjög þakklát fyrir frábærar móttökur,“ segir Almar en það eru þrjú ár síðan Almar bakari var síðast með bakarí á Selfossi.
Fékk þakkabréf frá þingmanni
Aðspurður hvað sé vinsælast í bakarínu segir Almar að það sé erfitt að segja. „Donutssnúðurinn okkar er rosa vinsæll. Einnig er cinnabunið mjög gott enn persónulega fer ég alltaf í vínarbrauðin,“ segir Almar.
„Svo erum við líka verulega stolt af brauðunum okkar og hefur Hengill súrdeigsbrauðið slegið algjörlega í gegn. Ég fékk sérstaklega þakkabréf frá ákveðnum þingmanni um að þetta væri besta súrdeigsbrauð sem hún hafði smakkað. Það var mjög ánægjulegt,“ segir Almar brosandi.
Mikil eftirspurn eftir bakarí á Hellu
Eins og áður hefur komið fram mun Almar bakari opna á Hellu í október og verður bakaríið staðsett við þjóðveginn.
„Við áætlum að opna á Hellu þann 4. október og erum mjög spennt fyrir þeim stað og trúum að það eigi eftir að blómstra,“ segir Almar. Ástæðan fyrir því að við ákváðum að opna var eiginlega vegna mikillar eftirspurnar þar. Meðal annars hringdi Ágúst sveitarstjóri í mig,“ segir Almar en ekkert bakarí er núna á Hellu.
Aðspurður hvort það standi til að opna bakarí á fleiri stöðum á Suðurlandi segir Almar það óákveðið. „En lífið er breytingum háð þannig að maður á aldrei að segja aldrei,“ segir Almar.
„Við viljum þakka fyrir frábærar móttökur og ætlum að gera okkar allra besta að þjónusta Sunnlendinga í framtíðinni,“ segir Almar að lokum.