„Þessi óvissa er rosalega erfið“

Birgitta ásamt fjölskyldu sinni. Ljósmynd/Úr einkasafni

Kennaraverkfall hófst í fjórtán leikskólum og sjö grunnskólum í dag. Þar á meðal er leikskólinn Óskaland í Hveragerði en 109 börn eru á leikskólanum.

Óskaland er annar tveggja leikskóla í Hveragerði en leikskólinn Undraland fer ekki í verkfall og er starfsemi með hefðbundnu sniði þar.

„Það er auðvitað svekkjandi að bara Óskaland sé í verkfalli en ekki Undraland,“ segir Birgitta Ragnarsdóttir, móðir tveggja barna á Óskalandi, í samtali við sunnlenska.is.

„Mér finnst hljóðið í öðrum foreldrum alls ekki nógu gott. Þessi óvissa er rosalega erfið, að geta ekki svarað börnunum sínum hvort það sé leikskóli á morgun er bara alveg ömurlegt. Það er ekki hægt að útskýra þetta fyrir svona litlum börnum.“

Þess má geta að kennarar á Óskalandi eru þeir einu á Suðurlandi sem eru í verkfalli.

Ekki allir með gott bakland
Birgitta segir að þau fjölskyldan séu með gott bakland en það séu þó ekki allir foreldrar á Óskalandi jafn heppnir og þau.

„Mín fjölskylda er mjög lánsöm með það að ég get unnið heima. Það er þó ekki hlaupið að því að reyna að vinna fulla vinnu ásamt því að vera með tvö leikskólabörn heima. Við erum einnig með gott bakland ef til þess kemur.“

„Ég hugsa mikið til einstæðra foreldra sem eru kannski ekki með gott bakland eða erlendra foreldra sem hafa ekkert bakland.“

„En að því sögðu þá stöndum við með okkar kennurum og vonum að það verði samið sem fyrst svo börnin okkar komist aftur í sína rútínu,“ segir Birgitta ennfremur.

Fyrri grein„Viljum öll að samfélagið sé öruggara“
Næsta greinÞrengslin opin