Elfa Þorsteinsdóttir, heilari og heilsufrömuður, fékk heldur betur að sannreyna það fyrr í vikunni að lögreglan fylgist með og passar vel upp á samborgara sína.
„Ég er svo heppin að ég get unnið hvaðan sem er, þar sem ég er með fólk í einkatímum í gegnum Zoom. Þennan morgun var ég að vinna í bílnum á Selfossi og valdi mér fallegan stað við Ölfusá, þar sem ég lagði bílnum,“ segir Elfa í samtali við sunnlenska.is
Hún var búin að sitja í bílnum í rétt rúma klukkustund þegar lögreglan kom að bílnum hennar.
„Þeir sögðust hafa fengið tilkynningu um að það væri manneskja að gera sig líklega til að fara á bretti út á Ölfusá. Ég fer mikið á svona SUP bretti og tek það oft með mér þegar ég fer í ferðalög. Þá er það alltaf klárt ef gott tækifæri gefst til að róa. Brettið var bundið á toppnum á bílnum,“ segir Elfa sem býr á Akureyri en er uppalin í Mýrdalnum.
Þakklát fyrir störf lögreglunnar
„Ég skildi engan veginn af hverju þeir voru komir þegar ég sá þá, en varð strax sérstaklega þakklát fyrir þeirra störf, þegar ég vissi erindið. Og líka þakklát fyrir þann einstakling sem lét vita að hugsanlega væri einhver að fara sér að voða. Ef ég hefði í raun verið að íhuga að fara út á brettinu þarna, þá hefðu þessir tveir ungu lögreglumenn bjargað lífi mínu með því að koma og stoppa mig. Enda er áin stórhættuleg og alls ekki staður til að fara út á svona paddle bretti,“ segir Elfa.
SUP bretti hafi notið aukinna vinsælda hér á landi að undanförnu. „Þetta eru bretti sem koma með einni ár. Maður stendur oftast á þeim og rær bara í rólegheitum, það er bara eins og ein tegund af hugleiðslu í fallegri náttúru. Það er líka hægt að vera á hnjánum eða sitja á brettinu og róa, bara eins og hentar hverjum og einum. Þessi bretti eru best á lygnum sjó eða vötnum. Þau henta ekki eins vel þar sem er mjög straumhart og það er erfitt að róa á móti í miklum vindi. SUP bretti henta vel fólki á öllum aldri. Ég var oft með strákinn minn með mér þegar hann var lítill og mamma mín, sem er 74 ára hefur róðið með mér nokkrum sinnum, bæði á sjó og vatni. Ég er með tvö bretti og það er mjög vinsælt hjá vinum mínum að koma með mér að róa.“
Vinna mikilvægt starf
„Shout out til allra lögreglumanna og -kvenna, sem helga líf sitt því að sjá til þess að við erum sem öruggust alltaf! Ég varð svo innilega þakklát við þessa heimsókn þeirra, þar sem ég var að vinna í bílnum með brettið á toppnum, við hliðina á þessari hættulegu á. Ég var svo vel minnt á hversu mikilvægt starf lögreglunnar er og gerði því Insta Shout-out Reel til allra lögreglumanna og -kvenna, með þakklæti fyrir öll þeirra störf,“ segir Elfa að lokum en Reel-ið má sjá hér að neðan.
View this post on Instagram