Brauðtertu- og ostakökukeppni Konungskaffis og Kaffi Krúsar fór fram í dag í blíðskaparveðri í miðbæ Selfoss.
Bestu brauðtertuna átti Jessica Thomasdóttir og bestu ostakökuna átti Anna Margrét Magnúsdóttir. Anna Margrét fékk einnig verðlaun fyrir frumlegustu ostakökuna.
„Þetta er eitt það erfiðasta sem ég hef gert, það er bara þannig. Við vorum að dæma eftir bragði en útlitið skiptir líka máli. Þetta voru sextán kökur allt í allt þannig að þetta tók lengri tíma en við héldum. Við vorum auðvitað ekki sammála um allt saman og hver vildi koma sínu að,“ segir Silja Hrund Einarsdóttir hjá Konungskaffi en hún sat í dómnefnd auk fjögurra annarra.
Auk Silju voru í dómnefnd þau Erla Hlynsdóttir hjá Brauðtertufélagi Erlu og Erlu, Torfi Ragnar Sigurðsson sælkeri, Ísak Eldjárn Tómasson hjá Kaffi Krús og Ida Sofia Grundberg matgæðingur.
„Við vorum með ákveðna formúlu sem við fórum eftir og reiknuðum út samtals stig. Það var mjög vísindalega unnið. Svo kom líka inn í þetta með frumlegustu kökuna, það var svona auka. En þetta var mjög erfitt og líka ekkert smá gaman hvað það tóku margir þátt.“
Árleg keppni
Silja segir að það sé strax búið að taka ákvörðun um að hafa keppnina árlega. „Við ætlum að gera þetta enn stærra og flottara á næsta ári. Við ætlum líka að vera búin að undirbúa þetta betur og auglýsa fyrr. En við erum alveg í skýjunum með þátttökuna og metnaðinn hjá keppendum. Það þurfti að koma með kökurnar á milli klukkan ellefu og tólf í morgun og miðað við útlitið og hvernig terturnar voru þá hafa sumir verið vaknaðir eldsnemma til að byrja að græja.“
„Það var engin kaka sem var vond þannig að það var ekki hægt að taka strax einhverja köku til hliðar. Kökurnar voru allar góðar og svo erum við auðvitað mismunandi, hvaða bragð við fílum og hvað vegur meira en annað þannig að það tók tíma að komast að niðurstöðu.“
Mikil ásókn að komast í dómnefndina
Silja segist ekki vera búin að fá nóg af brauðtertum og ostakökum þó að hún sé búin að vera að borða svoleiðis í allan dag og getur vel hugsað sér að fá sér meira strax í kvöld. Hún mælir eindregið með því að vera í dómnefnd í svona keppni.
„Við ætlum strax að gera viðburð á Facebook fyrir keppnina á næsta ári. Við ætlum að hafa þetta sömu helgi, síðustu helgina í maí og fara bara strax að punkta hjá okkur hvað við viljum gera betur á næsta ári. Þess má geta að það var mikil ásókn í að sitja í dómnefnd í ár,“ segir Silja og hlær.
Silja vill þakka öllum sem tóku þátt í keppninni í ár. „Við erum í skýjunum með þátttökuna hjá Suðurlandsundirlendinu og það komu meira að segja tertur með Herjólfi í morgun. Það var fín skráning en svo var maður ekki viss um hvort fólk myndi koma með köku á sunnudagsmorgni. Það er líka svo gaman að sjá hvað fólk sýndi mikinn metnað og frumlegheit. Það voru líka nokkrir keppendur sem voru með fleiri en eina köku. Einhverjir tóku þátt bæði í ostaköku- og brauðtertukeppninni. Við ætlum að gera þetta að enn stærri viðburði á næsta ári,“ segir Silja að lokum.