Knattspyrnufélag Árborgar færði Krabbameinsfélagi Árnessýslu styrk í dag upp á 80.000 krónur.
Leikmenn Árborgar ákváðu að gefa krabbameinsfélaginu svokallaðan sektarsjóð liðsins en í þann sjóð borga leikmenn ef þeir brjóta ákveðnar reglur, eins og til dæmis að láta klobba sig í reit eða mæta of seint á æfingar.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Árborg ánafnar sektarsjóðnum til góðs málefnis en félagið hefur meðal annars styrkt Skammtímavistunina Álftarima 2 og frístundaklúbbinn Kotið.
Sektarsjóðurinn stóð í 40 þúsund krónum og ákvað stjórn félagsins að tvöfalda upphæðina, þannig að styrkurinn var samtals 80 þúsund krónur.
„Við eru með leikmann í okkar hópi, hann Ísak Eldjárn, sem sigraðist á krabbameini nýverið, þannig að þetta er okkur hjartans mál,“ segir Eiríkur Sigmarsson, samfélagsmiðlastjóri Knattspyrnufélags Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.
Eiríkur segir að þeir hafi ákveðið að afhenda styrkinn núna í tilefni af bleikum október. „Ég vil skora á nágrannafélögin okkar; Ægi, Selfoss, Hamar og fleiri að gera slíkt hið sama og gefa sinn sektarsjóð í gott málefni,“ segir Eiríkur.
Starfsemin byggist á styrkjum og stuðningi
Svanhildur Ólafsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Árnessýslu, tók á móti styrknum og var að vonum ánægð með framlagið.
„Þessi styrkur er gríðarlega mikilvægur inn í starfsemina, að geta bara haldið út þeirri þjónustu sem við erum að bjóða upp á fyrir félagsmennina. Allt sem fer fram innan félagsins er þjónustuþegum að kostnaðarlausu. Það byggir algjörlega á því að við fáum styrki og stuðning frá samfélaginu,“ segir Svanhildur.
„Við finum það í bleikum október að við erum ofarlega í huga fólks. Það þekkja allir einhvern sem hefur fengið krabbamein – krabbamein snertir okkur öll á einhvern hátt. Það hafa margir lagt okkur lið því fólk langar að hjálpa að einhverju leyti, því að allir geta gert eitthvað.“
Markmiðið að fólk þurfi ekki að fara yfir Heiðina
Svanhildur segir að það megi líkja starfseminni við Ljósið í Reykjavík en starfsemin sé þó ekki eins viðamikil, því ekki sé opið alla daga eins í hjá Ljósinu. „Markmiðið okkar er að færa þjónustuna í heimabyggð og að fólk þurfi ekki að sækja þjónustu til Reykjavíkur og fara yfir Heiðina. Það er auka álag í ferlinu að þurfa alltaf að fara til Reykjavíkur.“
„Við erum með endurhæfingarverkefni sem hefur reynst gríðarlega vel. Helstu kostnaðarliðir hjá okkur eru einmitt í tengslum við það, af því að við erum að fá fagfólk til að þjónusta það. Við erum styrkja félagsmenn um sálfræðiþjónustu og eins ef fólk þarf að dvelja í Reykjavík. Og svo auðvitað rekstur þessa húsnæðis en þeir sem standa vaktina hér taka á móti fólki og gera það í sjálfboðavinnu. Það er gríðarleg gjöf til félagsins – þegar fólk er tilbúið að gefa tímann sinn – og af sjálfum sér.“
Vilja vera til staðar
Svanhildur ítrekar að félagið sé líka fyrir aðstandendur – ekki bara fyrir þá sem eru með krabbamein. „Við erum með fræðslu í hverjum mánuði og við erum svolítið að miða hana við að allir geti sótt hana – bæði aðstandendur og þeir sem eru með krabbamein. Þetta eru námskeið sem fjalla um andlega líðan, næringu og fleira – eitthvað sem allir geta nýtt sér.“
„Við viljum vera til staðar og erum að reyna að gera okkur ennþá sýnilegri. Við erum til dæmis að efla samstarfið við HSU. Við vonumst til að fólk nýti sér þjónustuna sem við bjóðum upp á, þó að okkur finnist að sjálfsögðu ekki jákvætt að félagsmönnum fjölgi. Það er hins vegar jákvætt að þeim fjölgar sem nýta sér þjónustuna,“ segir Svanhildur að lokum.
UPPFÆRT KL. 20:55 Ægismenn í Þorlákshöfn voru snöggir til og millifærðu sömu upphæð inn á Krabbameinsfélag Árnessýslu!