Hjónin Snorri Sigurðsson og Fjóla Steindóra Kristinsdóttir hafa keypt Pylsuvagninum á Selfossi af mæðgunum Ingunni Guðmundsdóttur og Þórdísi Sólmundardóttur.
Pylsuvagninn er einn af kennileitum Selfossbæjar og ná vinsældir hans langt út fyrir bæjarmörkin. Fyrir marga er ekki hægt að heimsækja Selfoss án þess að koma við í Pylsuvagninum – og fyrir brottflutta Selfyssinga er oft fyrsta stoppið þar.
Pylsuvagninn var stofnaður árið 1984 af Ingunni Guðmundsdóttur. Upphaflegt húsnæði var aðeins um þrír fermetrar og aðeins ein manneskja stóð vaktina. Í dag er húsnæði Pylsuvagnsins 98 fermetrar og starfsmennirnir 35 talsins.
„Það er svona tvö ár síðan ég fór að hugsa um að selja en mig langaði að halda upp á 40 ára afmælið í ár sem var 9. Júní síðastliðinn. Og núna er ég bara alveg tilbúin. Algjörlega tilbúin,“ segir Ingunn. „Og við báðar, bara algjörlega tilbúnar,“ bætir Þórdís við og hlær.
Hefur hug á því að byrja í golfi
Ingunn er þekkt fyrir dugnað og eljusemi og það kemur eflaust einhverjum á óvart að þessi hressa kona sé orðin 73 ára. Þó að hún sé búin að leggja pylsutöngina á hilluna þá er hún síður en svo lögst upp í sófa með tærnar upp í loft. „Ég ætla bara að fara að leika mér, vera með eldri borgurum og kannski fer ég bara að spila golf,“ segir Ingunn og hlær.
Aðspurð hvort þær mæðgur hafi aldrei fengið nóg af pylsum svara þær því neitandi. „Maður getur alltaf fengið sér eina pylsu á dag,“ segir Ingunn og þær mæðgur hlæja báðar dátt.
Í Pylsuvagninum er hægt að fá samlokur, pítur, hamborgara, djúpsteiktar pylsur og fleira en Ingunn segir að hin klassíska pylsa sé lang vinsælust. „Svo kemur þessi djúpsteikta með frönskum. Hún er rosalega vinsæl,“ bætir Þórdís við. Aðspurð hvaða réttur á matseðli sé í uppáhaldi hjá þeim segir Ingunn og pylsa með tómat, sinnep og hráum sé hennar uppáhald á meðan Þórdís kýs pylsu með öllu.
Sinnepið í Pylsuvagninum er löngu orðið frægt en sinnepsósan er sérstök leyniuppskrift. „Fjóla fær þá uppskrift,“ segir Þórdís og hlær. Leyniuppskriftin verður því enn innan fjölskyldunnar.
Þakklát fyrir frábært starfsfólk
Á 40 árum er hægt að kynnast mörgu fólki, sérstaklega ef maður rekur jafn vinsælan skyndibitastað og Pylsuvagninn. „Við viljum þakka öllum Selfossbúum og landsmönnum fyrir frábæra viðkomu hér. Við erum búin að kynnast mörgum. Þetta eru búin að vera frábær 40 ár,“ segir Þórdís og Ingunn bætir við. „Ég er búin að vera með frábært starfsfólk. Ég vil þakka starfsfólkinu okkar alveg sérstaklega,“ segir Ingunn að lokum.
Vann sjálf í Pylsuvagninum
Sem fyrr segir festu hjónin Snorri og Fjóla kaup á Pylsuvagninum en þess má geta að Snorri er stjúpsonur Ingunnar.
„Við tökum við 1. janúar. Við stefnum á að ráða rekstrarstjóra sem kemur til um að sjá um reksturinn frá a-ö. Við erum í viðræðum við frábæran einstakling og vonandi gengur það. Við höfum hugsað okkur að halda rekstrinum óbreyttum,“ segir Fjóla í samtali við sunnlenska.is.
„Mér finnst svolítið gott sem Snorri minn sagði, við erum að halda þessu flotta fyrirtæki í fjölskyldunni en Snorri stjúpsonur Ingunnar. Ég vann svo sjálf í gamla vagninum og á fimmtán vinkonuhóp þaðan síðan ég var unglingur. Þetta er eitthvað sem stendur okkur svolítið nálægt.“
Einn af kennileitum Selfoss
Það er augljóst að Fjólu þykir vænt um Pylsuvagninn og er hún spennt fyrir komandi tímum. „Það er alveg ótrúlegt hvað þær mæðgur eru búnar að gera, rosalega flottur rekstur hjá þeim og búið að ganga vel.“
„Pylsuvagninn er eitt af kennileitunum okkar, hann er svo mikill partur af okkur. Maður er náttúrulega svo mikill Selfyssingur og manni langar að halda í sem flest svona kennileiti en Pylsuvagninn er eitt af þessum öflugu fyrirtækjum sem eru búnir að vera hér svo lengi. Það er gaman að geta haldið áfram með óbreyttu sniði,“ segir Fjóla að lokum.