Það var góð stemning í Hrunaréttum í dag og fjöldi fólks mætt í réttirnar í fyrsta skipti eftir tvö ár af samkomutakmörkunum.
Réttarstörfin hófust klukkan tíu í morgun og gengu vel fyrir sig. Jón Bjarnason, fjallkóngur og oddviti í Skipholti, segir að fjallmönnum hafi gengið ágætlega að koma safninu til byggða.
„Það var alveg fáránlegur hiti, elstu menn muna ekki annað eins, yfir tuttugu stig nánast alla daga og kindurnar eru alveg svakalega þungar á sér í þessum hita, þær eru ekkert öðruvísi en við,“ sagði Jón í samtali við sunnlenska.is.
„Það fóru 3.700 hausar á fjall og við vonumst til að það séu góðar heimtur hér í dag þó að ég viti það ekki ennþá. Það kemur í ljós eftir daginn í dag þegar menn eru farnir að telja í dilkunum. En féð lítur vel út, ég hugsa að það sé að meðaltali nokkuð gott. Það er gott átak í lömbunum,“ sagði Jón ennfremur og bætti við að það sé gaman að koma í réttirnar aftur þar sem gestir séu leyfðir.
„Þetta er mikill gleðidagur þó að hitt hafi verið ágætt líka. Það er aðeins meira krefjandi að vera með mikla mannmergð í almenningnum. En þetta er vissulega gaman, þetta eru jólin fyrir okkur, gleði og hátíð,“ sagði Jón að lokum.