Viðskiptavinir Krónunnar í Þorlákshöfn og Vík í Mýrdal geta frá og með deginum í dag bæði notað sjálfsafgreiðslukassa eða skannað vörurnar með símanum og greitt fyrir innkaupin í Snjallverslunarappi Krónunnar. Um tímamót er að ræða því núna geta viðskiptavinir Krónunnar gengið að sömu afgreiðslulausnum í öllum verslunum um land allt.
Krónan ákvað í desember síðastliðnum að breyta Kr.- verslunum sínum á Þorlákshöfn og Vík í Krónuverslanir. Unnið hefur verið að því síðustu mánuði að uppfæra verslanirnar og færa þær í sama form og önnur útibú Krónunnar. Opnun sjálfsafgreiðslukassa í Þorlákshöfn og innleiðing „Skannað og skundað“ í báðum verslunum markar lokahnykkinn á því ferli.
„Skannað og skundað“ er afgreiðslulausn í smáforriti Krónunnar sem gerir viðskiptavinum kleift að skanna strikamerki vara beint í símann sinn. Þá birtist verð og aðrar upplýsingar um vöruna og varan bætist samstundis við körfuna. Viðskiptavinir greiða svo í gegnum appið og geta gengið út úr versluninni án þess að þurfa að fara á kassa. „Skannað og skundað“ var ýtt úr vör haustið 2021 og hefur sístækkandi hópur viðskiptavina tamið sér lausnina við innkaup sín.
Ingólfur Árnason, verslunarstjóri Krónunnar í Þorlákshöfn, segist lítast mjög vel á að fá „Skannað ogn skundað“ í verslunina. „Ég hef prófað þetta á Selfossi og nýti mér það stundum þegar miklar raðir eru. Þetta mun breyta miklu fyrir viðskiptavini og ég veit að mörg eru spennt fyrir þessu og ætla að nýta sér þennan möguleika,“ segir Ingólfur og bætir við að starfsfólk Krónunnar verði til taks og aðstoði viðskiptavini sem vilji læra á „Skannað og skundað.“