„Þetta var kannski lúxus í viku“

Kristinn Þór Kristinsson og Baltasar Kjærnested eru komnir með leið á því að vera í verkfalli. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Þrátt fyrir að verkfall standi yfir í Fjölbrautaskóla Suðurlands gera sumir nemendur sitt besta til að halda dampi og mæta reglulega í skólann.

Blaðamaður sunnlenska.is hitti á vinina Baltasar Kjærnested og Kristinn Þór Kristinsson þar sem þeir voru að spila borðtennis í aðalrými FSu. Þeir útskrifast báðir vorið 2026, Baltasar af opinni línu og Kristinn Þór af náttúrufræðilínu.

„Maður kemur ennþá hingað í kaffi og ping pong og svona. Við komum sirka annan hvern dag hingað út í skóla. Kíkjum á stöðuna á Dagnýju og erum búnir að vera að taka svolítið upp sketsa fyrir YouTube rásina okkar, Bensín í hælinn. En við erum búin að sakna skólalífsins,“ segir Baltasar.

„Það er opið hérna til að fara í ping pong en okkur finnst auðvitað leiðinlegt að það sé verkfall í gangi. Þetta hefur náttúrulega svolítið áhrif á námið hjá okkur. Við sinnum náminu eins mikið og við getum en það er auðvitað ekki hægt að fá hjálp frá kennurum,“ segir Kristinn.

Upplifa sig gleymda
Líkt og fleiri nemendur hafa strákarnir efasemdir um verkfallsaðgerðirnar. „Það er dálítið leiðinlegt að FSu sé eini skólinn sem er í verkfalli. Ég held að þetta hafi ekki nein áhrif, útaf því að þetta er bara einn skóli,“ segir Kristinn og Baltasar tekur undir orð hans. „Þetta er svolítið skrítið. Við erum svolítið gleymd. Það er ekkert búið að pæla í þessu síðan við fórum í verkfall. Ef það hefðu verið aðrir stórir skólar eins og til dæmis MS eða Verzló þá hefði strax verið farið í þetta og reynt að leysa deiluna.“

„Átta vikur er svolítið langur tími í verkfalli. Þetta lítur ekkert út fyrir að vera að leysast og það er svolítið slappt,“ segir Kristinn.

FSu kennslustofa í verkfalli. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Þrá að fá aftur rútínu
Strákarnir telja að það taki smá tíma að koma sér aftur í rútínu þegar skólinn hefst á nýjan leik. „Eins og staðan er núna þá er bara engin rútína. Það væri kannski bara fínt að fá skólann aftur, fá aftur rútínuna,“ segir Baltasar.

„Eins mikið og það getur verið gaman að vera ekki í skólanum þá verður maður að hafa einhverja rútínu til að fylgja,“ segir Kristinn og Baltasar bætir við að þetta hafi verið fínt til að byrja með. „Þetta var kannski lúxus í viku, eftir það þá var maður bara hvað á ég að gera? Hvað á ég að gera núna?“

Hefur áhyggjur af nemendum
Soffía Sveinsdóttir, skólameistari FSu, segir í samtali við sunnlenska.is að hún hafi vaxandi áhyggjur af nemendum skólans, sérstaklega viðkvæmasta hópnum.

„Ég hvet nemendur til að halda rútínu og stunda námið sjálf. Þau geta lesið námsbækur, glósað, skoðað vídeó, gert dæmi og verkefni í skólabókum, byrjað á skilaverkefnum, hist í hópum til að ræða námsefnið og margt fleira. Það mun skila sér.“

„Eins langar mig að benda á að bókasafnið er opið, mötuneytið er opið frá mánudögum til fimmtudaga og skrifstofan er opin. Einnig er hægt að panta viðtalstíma hjá félagsráðgjafa og hjúkrunarfræðingi,“ segir Soffía ennfremur.

Fyrri greinÓttar ráðinn heilsu- og tómstundafulltrúi
Næsta greinUppselt fram að jólum á Ávaxtakörfuna