ÞG verktakar í Reykjavík buðu lægst í smíði brúar á þjóðvegi 1 yfir Jökulsá á Sólheimasandi en tilboð í verkið voru opnuð í gær.
Tilboð ÞG verktaka hljóðaði upp á 734,6 milljónir króna og var 82% af áætluðum verktakakostnaði, sem er tæpar 892 milljónir króna.
Eykt ehf bauð 742,4 milljónir í verkið, Ístak 841,7 milljónir, JÁVERK ehf 898,9 milljónir og Suðurverk og Metroslav Íslandi buðu 913 milljónir króna.
Auk smíði brúar þarf að endurgera veginn beggja vegna brúar og gera bráðabirgðaveg á meðan á verkinu stendur. Nýja brúin verður eftirspennt bitabrú í fimm höfum, alls 163 metra löng.
Verkinu á að vera lokið þann 15. nóvember 2021.