Sveitarfélagið Árborg og Björgunarfélag Árborg endurnýjuðu í síðustu viku þjónustusamning um verkefni sem björgunarfélagið kemur að í sveitarfélaginu.
Samningurinn felur í sér helstu verkefni sem björgunarfélagið kemur að en þau eru framkvæmd áramótabrennu á Selfossi, flugeldasýningar, aðstoð við snjómokstur fyrir eldri borgara, viðhald jólaljósa á Ölfusárbrú og framkvæmd sjómannadagshátíðar á Stokkseyri, ásamt aðkomu að öðrum hátíðum. Sveitarfélagið Árborg styrkir félagið einnig árlega með sérstökum rekstrarstyrk sem fer í almennan rekstur, barna- og ungmennastarf og æfingar félagsmanna.
Núverandi samningur er til eins árs en til stendur að vinna drög að lengri samning á árinu enda samstarfið gengið mjög vel í gegnum árin og er ánægjulegt að samstarfið haldi áfram, að því er segir í tilkynningu frá sveitarfélaginu.