Þjótandi ehf átti lægsta tilboðið í jarðvinnu og lagningu jarðstrengja til og frá nýju tengivirki Landsnets við Lækjartún í Ásahreppi. Tilboð í verkið voru opnuð í gær.
Tilboð Þjótanda hljóðaði upp á tæpar 376 milljónir króna en kostnaðaráætlun verksins er 365,7 milljónir.
Þrjú önnur tilboð bárust í verkið. Berg Verktakar buðu 416,8 milljónir króna, Þróttur ehf 486,6 milljónir og Íslenskir aðalverktakar 681,8 milljónir króna.
Selfosslína 2 verður sett í jörð á 15,3 km kafla frá tengivirkinu við Lækjartún að tengivirki Landsnets á Hellu og einnig á 1,2 km kafla frá núverandi loftlínu að tengivirkinu við Lækjartún. Einnig verða settir niður 220 kV jarðstrengir innan lóðar tengivirkisins, sem munu tengjast Búrfellslínu 2.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdum verði lokið í lok árs 2021.