Þau tímamót urðu nú í sumar að Þórhallur Svavarsson, sem hefur verið forstöðumaður íþróttamiðstöðva Rangárþings ytra í rúmlega 20 ár, lét af því starfi eftir afar farsælan feril.
Við boltanum tók Ragnar Ævar Jóhannsson sem nú gegnir nýju starfi heilsu-, íþrótta- og tómstundafulltrúa sveitarfélagsins. Þórhallur var upphaflega ráðinn sem forstöðumaður Íþróttamiðstöðvar hjá Rangárvallahreppi árið 1999 en síðan frá árinu 2002 hjá sveitarfélaginu Rangárþingi ytra.
„Allir sem til þekkja vita að Þórhallur hefur gegnt þessu starfi af mikilli trúmennsku og lipurð allan þennan tíma. Hann hefur verið vakinn og sofinn yfir verkefninu, hvort sem um er að ræða skipulag og utanumhald á íþróttastarfi barna og unglinga eða undirbúningur Þorrablóta og erfidrykkkja. Eru Þórhalli þökkuð vel unnin störf sem forstöðumaður hjá sveitarfélaginu og honum óskað bjartrar framtíðar og velfarnaðar í þeim verkefnum sem hann nú tekur sér fyrir hendur,“ segir í frétt sem birtist í septemberútgáfu fréttabréfs Rangárþings ytra.