Klukkan 9:38 í morgun hófst jarðskjálftahrina í Þórisjökli og hefur hún staðið yfir í allan dag.
Skjálftarnir eru orðnir 28 talsins, sá stærsti af stærðinni 3,0 kl. 13:06 í dag. Veðurstofunni hefur ekki borist tilkynning um að skjálftarnir hafi fundist í byggð.
Svæðið, sem er í Grímsnes- og Grafningshreppi, er enda fjarri mannabyggðum en upptök stærsta skjálftans eru 37 kílómetrum fyrir norðan Laugarvatn.
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvöktunar hjá Veðurstofunni, segir á Twittersíðu sinni að um frekar óvenjulega virkni sé að ræða.
Earthquake activity in Þórisjökull today. Rather unusual. @Vedurstofan https://t.co/4WCFJsveud pic.twitter.com/AMTHyscXV2
— Kristín Jónsdóttir (@krjonsdottir) January 27, 2021