Þrengslin á Selfoss og Kótelettustrætó

Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það er stór helgi framundan á Selfossi, Kótelettuhátíð og KIA Gullhringurinn hjólreiðakeppnin og má búast við mikilli umferð í kringum bæinn. Ökumenn eru hvattir til þess að aka Þrengslin og Eyrarbakkaveg á Selfoss á laugardag og fara af Eyraveginum um Fossheiði.

„Sú hindrun sem gamla Ölfusárbrúin á Selfossi er orðin er nú flestum kunn og hringtorgið þar löngu sprungið. Þess vegna hvetjum við bílstjóra til að forðast hringtorgið við Ölfusárbrú. Við hvetjum reyndar bílaumferð til að forðast Austurveginn allan á milli klukkan 12:00 og 18:00 þennan dag. Kjörið er að heimsækja hann fremur fótgangandi,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Sveitarfélagið Árborg býður upp á bílastæði og strætó á 7-10 mínútna fresti og hvetur fólk til að fara ekki akandi að hringtorginu við Ölfusárbrú, Tryggvatorgi. Beygja má af Eyravegi við Fossheiði og þá er fólk hólpið í góð bílastæði og Kótelettustrætó. Auðvitað er svo alveg kjörið að vera hjólandi, Árborg er flatlend og reiðhjólavæn.

Á Selfossi verður Kótelettan með sína veislu á laugardag og klukkan 18:00 ræsir svo KIA Gullhringurinn í fyrsta sinn á Selfossi, við nýja miðbæinn. Hægt verður að kíkja á nýja miðbæinn og aldrei að vita nema eitthvað megi fá í gogginn þar.

Þá eru afþreyingarmöguleikar ótæmandi, bæði á Selfossi, þar sem Sundhöllin stendur upp úr, en einnig niður við ströndina. Á ströndinni liggur Vitaleiðin í allri sinni dýrð, um Þorlákshöfn, Eyrarbakka, Stokkseyri og fjölbreytta náttúru. Á Stokkseyri eru kayakferðir um vötn og síki algert fjölskyldugaman og vinsælli en nokkru sinni.

Stoppistöðvar Kótelettustrætó verða:

  • Sunnulækjarskóli – Norðurhólum 1
  • FSU – Tryggvagötu 25
  • Sundhöll Selfoss – Tryggvagötu 15
  • Tjaldsvæðið Gesthúsum – Engjavegi 56
  • Pósthúsið – Larsenstræti 1
  • Sunnulækjarskóli – Norðurhólum 1

Bílastæði

Árborg mælir með bílastæðunum við Sunnulækjarskóla, Norðurhólum 1, og bílastæðunum við Fjölbrautarskóla Suðurlands, FSu. Bílastæði eru þó mun víðar í nágrenni Tryggvagötu, svo sem í nágrenni Vallaskóla við Sólvelli og Engjaveg.

Einnig hafa Rarik og Húsasmiðjan heimilað afnot af byggingarreitum sínum sem liggja með sunnanverðu Larsenstræti. Þaðan er stutt að fara í stoppistöðina við Pósthúsið og í stórverslanir í nágrenninu.

Auk þessa eru víða bílastæði í nágrenni akstursleiðar Kótelettustrætósins.

Fyrri greinTvö rauð í Suðurlandsslagnum – Árborg með stórsigur
Næsta greinÁlfrún setti tvö ný met