Í ár var í fyrsta sinn haldin jólaskreytingakeppni Rangárþings eystra og má segja að íbúar hafi sannarlega tekið það til hjartans, því að sjaldan hefur eins mikið og fallega verið skreytt í öllu sveitarfélaginu og virkilega úr vöndu að ráða fyrir dómnefndina.
Óskað var eftir tilnefningum frá íbúum um fallega skreytt hús og bárust fjölmargar. Dómnefnd var einnig fengin til að meta skreytingar og að fengnu áliti hennar og með tilliti til tilnefninga var ákveðið að veita tveimur íbúðarhúsum á Hvolsvelli og einu fyrirtæki verðlaun að þessu sinni. Það voru Gunnarsgerði 7a og Hvolstún 16 og Rafverkstæði Ragnars.
Rangárþing eystra hvetur íbúa til að fá sér bíltúr eða taka göngutúr um Hvolsvöll og dreifbýlið og skoða allar fallegu skreytingarnar í ár.