Frá því á föstudag í síðustu viku eru skráð þrettán umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Í þremur af þessum umferðaróhöppum var um slys á fólki að ræða. Að auki voru tvö vélsleðaslys skráð.
Þrátt fyrir oft á tíðum víðsjárverðar akstursaðstæður síðustu daga hafa 27 ökumenn verið kærðir fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast ók var á 148 km/klst hraða á Suðurlandsvegi í Eldhrauni.
Fimm ökumenn voru stöðvaðir, grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og að auki tveir, grunaðir um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.
Síðustu daga hafa verið þungatakmarkanir á vegum og lögregla því haldið uppi eftirliti þeim tengdum. Tveir voru kærðir fyrir að vera með ökutæki sín of þung og að auki kært fyrir ranga notkun á ökuritum. Sérstök áhersla hefur verið á ökumenn sem stunda akstur í atvinnuskyni en til þess þurfa ökumenn að gangast undir endurmenntun á fimm ára fresti. Tveir ökumenn voru kærðir fyrir slíkt brot.