Þriggja mánaða fangelsi og stór sekt fyrir ítrekuð umferðarlagabrot

Héraðsdómur Suðurlands á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi á dögunum karlmann á þrítugsaldri í þriggja mánaða fangelsi fyrir fjársvik og ítrekuð umferðarlagabrot.

Manninum var gert að sök að hafa tvívegis svikið fjármuni út úr einstaklingum með því að telja þeim trú um að hann myndi selja viðkomandi iPhone. Hann fékk annars vegar 100 þúsund krónur og hins vegar 40 þúsund krónur millifærðar inn á reikning hjá sér, en afhenti aldrei símana. Í þriðja tilvikinu sveik hann bíl út úr viðskiptum við aðila sem hafði bílinn til sölu, sagðist ætla að millifæra kaupverðið síðar en gerði það aldrei.

Hann var einnig ákærður fyrir að aka tuttugu sinnum próflaus en á tímabilinu maí til september í fyrra var hann stöðvaður nítján sinnum af lögreglunni, þar sem hann ók próflaus. Í nokkrum tilvikum var hann stöðvaður vegna hraðaksturs. Einnig var hann ákærður fyrir að stela kerru af bílastæði í Varmahlíð í Skagafirði í maí í fyrra og sama morgun stal hann torfæruhjóli úr skemmu af sveitabæ í nágrenninu og kom því fyrir á kerrunni.

Maðurinn játaði sök í öllum ákæruliðunum nema einum, þar sem hann neitaði að hafa ekið bíl í það skiptið, en framburður lögreglumanna sem að málinu komu voru samhljóða og því þótti sannað að hann væri einnig sekur í þeim ákærulið.

Maðurinn hefur átta sinnum áður verið fundinn sekur um refsivert athæfi, svosem þjófnað, gripdeild, tollalagabrot og umferðarlagabrot og var dómurinn því þyngdur. 

Hann fékk því þriggja mánaða fangelsisdóm og þarf að greiða rúmlega tveggja milljón króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna. Greiði hann ekki þarf hann að sitja í fangelsi í 60 daga til viðbótar.

Þá var maðurinn sviptur ökurétti í fjóra mánuði og jafnframt sviptur rétti til að öðlast ökuskírteini í sex ár og átta mánuði. Einnig voru þrjár bifreiðar mannsins gerðar upptækar og honum gert að greiða allan málskostnað, samtals tæplega 1,1 milljón króna.

Fyrri greinSvavar ráðinn þjálfari meistaraflokks kvenna
Næsta greinSamkeppnishæf á alþjóðamarkaði