Eigna- og veitunefnd Árborgar samþykkti á fundi sínum í gær staðsetningu ærslabelgja í sveitarfélaginu sem setja á upp snemma í sumar.
Tómas Ellert Tómasson, formaður eigna- og veitunefndar, sagði í samtali við sunnlenska.is að belgurinn á Selfossi yrði staðsettur á grænu svæði við Sunnulækjarskóla, á Eyrarbakka verður belgur á Garðstúni við hlið leikvallar og á Stokkseyri verður belgurinn staðsettur nærri grunnskólanum.
Upphaflega stóð til að ærslabelgurinn á Selfossi yrði staðsettur á Selfossvelli en ekki fannst hentug staðsetning og því var hann færður að Sunnulæk.
„Á næsta fundi skipulags- og byggingarnefndar verður ósk um framkvæmdaleyfi tekin fyrir en stefnt er að því að fara strax í framhaldinu í framkvæmdirnar, þannig að allir belgirnir verði komnir upp og í notkun í júní,“ segir Tómas Ellert.
Áætlaður kostnaður við hvern ærslabelg er um ein og hálf milljón króna.