Viðbragðsaðilar í Skaftafellssýslum eru nú að vinna á vettvangi umferðarslyss á Skeiðarársandi þar sem þrír bílar lentu í árekstri.
Tilkynning um slysið barst Neyðarlínunni um kl. 15:45. Samtals tólf einstaklingar voru í bílunum þremur og eru þrír til fjórir með minniháttar meiðsli en hinir virðast ómeiddir þó áreksturinn hafi verið harður.
Engu að síður var óskað eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar og verður að minnsta kosti einn sjúklingur fluttur með henni vegna mögulegra háorkuáverka.
Upplýsingar um tildrög slyssins eða tegundir ökutækja liggja ekki fyrir. Mjög mikil hálka er á veginum um Skeiðarársand og biður lögregla ökumenn að fara sérstaklega varlega vegna þess.
Umferð um vettvang er stýrt af lögreglu og má búast við töfum um nokkurn tíma meðan vinna á vettvangi fer fram.