
Þrír einstaklingar undir tvítugu eru grunaðir um að búa til og sprengja heimatilbúnar sprengjur á Selfossi. Mbl.is greinir frá þessu í dag.
Undanfarna daga hefur lögreglan fengið tilkynningar um sprengingar á Selfossi og síðastliðinn fimmtudagsmorgun var mikill viðbúnaður og götulokanir við Tryggvagötu og Engjaveg eftir að torkennilegur hlutur fannst þar. Það reyndist vera heimatilbúin flöskusprengja sem sérsveit ríkislögreglustjóra eyddi á vettvangi.
Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi kemur fram að unnið hafi verið að málinu fram eftir degi á fimmtudaginn og upplýstist það samdægurs.
Mbl.is hefur eftir Sveini Kristjáni Rúnarssyni, yfirlögregluþjóni, að vitað sé hverjir gerendurnir séu. Þeir séu allir undir tvítugu og þurfa ekki að fara í gæsluvarðhald.