Lögreglumenn á Suðurlandi ásamt sérsveit rikislögreglustjóra handtóku í gærkvöldi þrjá pilta sem höfðu stolið bíl og strokið af meðferðarheimilinu Lækjarbakka á Rangárvöllum.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var í æfingaflugi og aðstoðaði við leitina og fann áhöfn þyrlunnar bifreiðina mannlausa. Piltarnir höfðu þá flúið undan lögreglu á fæti en voru handteknir nokkru síðar.
Vísir greindi fyrst frá málinu en þar kemur fram að piltarnir hafi ógnað starfsmanni á Lækjarbakka og stolið bíl. Þeir hafi síðan verið handteknir í Þykkvabæ þar sem tveir þeirra hafi falið sig í útihúsi enþá þriðji verið handtekinn á öðrum stað.
Í tilkynningu frá lögreglu segir að málið sé til rannsóknar og ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.
Barnaverndarstofa rekur meðferðarheimilið að Lækjarbakka og eru ungmenni á aldrinum 14 til 18 ára vistuð þar.