Fjörutíu framúrskarandi námsmenn tóku í dag við styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands við athöfn í hátíðasal skólans. Í hópnum voru þrjár ungar konur af Suðurlandi, þær Aldís Elva Róbertsdóttir, Hólmfríður Arna Steinsdóttir og Sigurbjörg Guðmundsdóttir.
Aldís Elva er frá Selfossi en hún útskrifaðist frá Fjölbrautaskóla Suðurlands vorið 2020 sem semidúx og hlaut verðlaun fyrir frábæran árangur í íslensku og dönsku. Hún lét mikið að sér kveða í félagslífi FSu og náði m.a. góðum árangri í söngkeppni skólans. Þá leikur hún á gítar og sótti m.a. tónlistarnám í lýðháskóla í Danmörku áður en hún innritaði sig í Háskóla Íslands. Áhugi Aldísar á heilbrigðisgeiranum kviknaði við störf á hjúkrunarheimili og hún hefur því innritast í hjúkrunarfræði.
Hólmfríður Arna er frá Vestmannaeyjum en hún útskrifaðist frá Fjölbrautaskóla Suðurlands í vor með afar glæsilegum árangri en hún var í handboltaakademíu skólans og lék um leið með handknattleiksliði Selfoss sem komst í deild þeirra bestu í vor. Hún hefur jafnframt sótt bæði dómara- og þjálfaranámskeið í handbolta. Hólmfríði hefur dreymt um að verða tannlæknir síðan hún var lítil stelpa og ætlar að láta þann draum rætast í tannlæknisfræði í Háskóla Íslands.
Sigurbjörg er Eyrbekkingur en hún útskrifaðist frá Verzlunarskóla Íslands í fyrravor og hlaut viðurkenningar fyrir árangur í alþjóðafræði, sögu og þýsku. Hún var í sigurliði Gettu betur liðs Verzló í fyrra en tók jafnframt þátt í starfi liðsins hin tvö árin. Á alþjóðabraut í Verzlunarskólanum kynntist Sigurbjörg stjórnmálafræði og hefur nú skráð sig til náms í þeirri grein í Háskóla Íslands.
Yfir 400 styrkþegar frá upphafi
Afreks- og hvatningarsjóður stúdenta Háskóla Íslands hefur allt frá árinu 2008 veitt styrki til nýnema sem náð hafa framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs og jafnframt látið til sín taka á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og íþróttum. Sjóðurinn styrkir einnig nemendur sem hafa sýnt fádæma seiglu og þrautseigju og hafa, þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður, staðið sig afar vel í námi. Styrkþegar frá upphafi eru yfir 400.
Auglýst var eftir umsóknum um styrki í vor og hafa þær aldrei verið fleiri. Styrkupphæð hvers og eins nemur 375 þúsund krónum og heildarupphæð styrkjanna er því 15 milljónir króna.
Styrkirnir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands eru veittir með stuðningi Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands og Happdrættis Háskóla Íslands.