Þrjú brauð í boði á Suðurlandi

Skálholtsdómkirkja. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Biskup Íslands hefur auglýst eftir sóknarprestum til þjónustu í þremur prestaköllum í Suðurprófastsdæmi.

Hér er um að ræða Víkurprestakall, Breiðabólsstaðarprestakall og Skálholtsprestakall. Umsóknarfrestur er til 6. ágúst og er miðað við að nýju prestarnir geti hafið störf þann 1. september næstkomandi.

Árni Þór Þórsson, sóknarprestur í Víkurprestakalli, hefur verið ráðinn í afleysingastöðu í eitt ár í Seljakirkju í Breiðholti, Sigríður Kristín Helgadóttir á Breiðabólsstað hefur verið ráðin í Fossvogsprestakall í eins árs afleysingu og Dagur Fannar Magnússon, héraðsprestur Suðurprófastsdæmis og fyrrum sóknarprestur í Skálholti, hefur verið ráðinn í afleysingastöðu í eitt ár í Árbæjarprestakalli í Reykjavík.

Prestaköllin þrjú eru misstór. Í Víkurprestakalli eru sóknarbörnin 441 og guðshúsin átta talsins, í Breiðabólsstaðarprestakalli eru 1.091 íbúar í þjóðkirkjunni og kirkjurnar sex talsins og í Skálholtsprestakalli eru átta sóknir þar sem eru tólf kirkjur og sóknarbörnin 1.033 talsins.

Í öllum prestaköllunum fara umsóknir fyrir valnefnd sem skal ná samstöðu um einn umsækjanda og í framhaldinu ræður biskup viðkomandi í starfið. Valnefndin getur hafnað öllum umsóknum og sóknarbörn geta óskað eftir prestkostningum en til þess þarf 25% sóknarbarna að undirrita ósk um slíkt.

Fyrri greinÁrborg endurnýjar þjónustusamning við Fossbúa
Næsta greinFranskt söngtríó á lokatónleikum Engla og manna