Jóhanna Magnúsdóttir, sóknarprestur í Víkurprestakalli, er ekki að gefa tjaldvagn, þrátt fyrir pósta í hinum ýmsum Facebook hópum.
Svikahrappur á Facebook hefur notað mynd af Jóhönnu og nafnið hennar og deilt innleggi í hinum ýmsu hópum á Facebook þar sem tjaldvagn er auglýstur gefins.
Í auglýsingunni auglýsir manneskja undir nafninu Jóhanna Stefánsdóttir að hún vilji gefa fjölskyldu í neyð tjaldvagn, þar sem þau hjónin séu flutt til Portúgal. Tjaldvagninn breytist svo reyndar í húsbíl þegar líður á auglýsinguna og er fólk beðið um að senda póst á uppgefið netfang til að fá frekari upplýsingar.
Sunnlenska.is hafði samband við Jóhönnu vegna málsins. Hún segir að það hafi verið mjög óþægileg tilfinning að sjá mynd af sér og nafn sitt til að blekkja fólk.
„Ég var búin að fá tvær ábendingar með einhverju millibili um að það væri verið að nota mynd af mér á Facebook prófíl. Ég gerði ekkert í því, en svo fékk ég þrjár ábendingar í fyrradag um að kona að nafni Jóhanna Stefánsdóttir væri með Facebook-síðu þar sem hún notaði mína mynd og væri að bjóða ókeypis tjaldvagn.“
Jóhanna segir að hún hafi tilkynnt viðkomandi síðu til Facebook. „Ég fékk svo skilaboð fljótlega um að þeir væru búnir að skoða síðuna og hún væri ólögleg. Ég fékk svo aftur skilaboð í morgun að búið væri að fjarlægja síðuna.“
„Mig minnir að síðan hafi verið stofnuð 2015, þannig að þetta er búið að vera lengi í gangi og getur passað að ég hafi einmitt notað þessa mynd þá. Ég er fegin að Facebook brást við núna en ég hef oft tilkynnt falsprófíla, menn sem hafa þóst vera aðrir en þeir eru, en það hefur ekki borið árangur.“
„Því miður virðist net- og símasvindl vera í sókn og því er það sorgleg staðreynd að við þurfum að vera á varðbergi gagnvart náunga okkar sem við viljum auðvitað miklu frekar treysta,“ segir Jóhanna að lokum.