Eftir hádegi í dag sýndu slökkviliðsmenn hjá Brunavörnum Árnessýslu hvernig slökkt er í logandi bifreið með stóru eldvarnarteppi á bökkum Ölfusár.
Brunavarnir Árnessýslu standa fyrir ráðstefnu í dag á Hótel Selfossi um hættur í bílum með aðra eldsneytisgjafa, með áherslu á rafmagn. Auk þess verður fjallað um eld og aðrar hættur í spennuvirkjum, en ráðstefnan er haldin í samstarfi við Mannvirkjastofnun.
„Við erum meðal annars að fjalla um hættur fyrir björgunaraðila vegna elda í rafmagnsbílum og spennuvirkjum. Við erum ekkert að ræða um að rafmagnsbílar séu hættulegir, heldur er þetta eitthvað nýtt og við þurfum að kynna okkur af hverju getur stafað ógn og hverju ekki,“ sagði Haukur Grønli, varaslökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is.
„Þetta er opin ráðstefna og það eru hérna gestir frá slökkviliðum allstaðar að af landinu, Neyðarlínunni, Mannvirkjastofnun, lögreglunni, Sjóvá, Verkís og héðan og þaðan. Og meira að segja veit ég um einn gest sem er hérna bara af því að hann á rafmagnsbíl.“
Getum ekki notað hvaða framlengingarsnúru sem er
Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni er Frank Åstveit, aðalvarðstjóri hjá slökkviliðinu í Bergen, en í Noregi hefur verið mikil umræða um hvernig bregðast skuli við eldi í bifreiðum með aðra eldsneytisgjafa. Haukur segir að erindi Åstveit hafi verið mjög fróðlegt.
„Það eru 200.000 rafmagnsbílar í Noregi og á síðasta ári voru tveir bílbrunar útaf rafhlöðum. Þannig að það er ekki eins og þetta sé eitthvað hættulegra. Það sem við óttumst er hvort við séum klár að taka á móti rafmagnsbílunum upp á hleðslu að gera. Við þurfum að fræða fólk um að við getum ekki sett bílinn í samband við hvaða framlengingarsnúru sem er og setja kannski í innstunguna í barnaherberginu. Við þurfum að vera með réttu græjurnar og þá er þetta mjög öruggt,“ segir Haukur.
Erfitt að slökkva í rafmagnsbílum
Það var magnað að fylgjast með verklegri sýningu slökkviliðsmanna á bökkum Ölfusár sem slökktu eld í alelda fólksbíl með eldvarnarteppi á skömmum tíma. Haukur segir að þarna sé á ferðinni ný leið sem verið sé að skoða hjá Brunavörnum Árnessýslu.
„Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins er með svona teppi og við erum að prófa þetta núna. Það er erfitt að slökkva í rafmagnsbílum, það þarf að nota mikið vatn og þá er slökkvistarfið orðið mjög mengandi fyrir umhverfið. Þá þarf að hugsa aðrar leiðir, þar sem það er ekki hægt að nota froðu eða duft. Með þessari aðferð er súrefnið tekið í burtu og svo er hægt að slökkva með litlum skömmtum af vatni,“ sagði Haukur að lokum og bætti við að hjá BÁ séu menn virkilega ánægðir með daginn.
„Ég get ekki sagt annað en að við séum himinlifandi. Það eru yfir 140 manns á ráðstefnunni og mörg fróðleg erindi í boði.“