
Bæjarhátíðin Sumar á Selfossi náði hápunkti sínum í kvöld þegar þúsundir komu saman í sléttusöng í Sigtúnsgarði í miðbæ Selfoss.
Magnús Kjartan Eyjólfsson hefur stjórnað sléttusöngnum á Selfossi um árabil og hann sló ekki feilnótu í kvöld frekar en fyrri daginn.
Íbúar bæjarins hafa verið duglegir að skreyta hús sín í tilefni af bæjarhátíðinni og göturnar hafa tekið sig saman og staðið fyrir ýmsum uppákomum. Víða voru götugrill á Selfossi í kvöld og gleðin við völd. Fáir skemmtu sér þó jafn vel og íbúar Tröllhóla en gatan var valin skemmtilegasta gata bæjarins í ár.

