Gríðarlegt þrumuveður er þessa stundina í uppsveitum Árnessýslu og hefur Veðurstofan fengið margar tilkynningar af svæðinu.
Í orðsendingu frá Veðurstofunni segir að líklega munu veðrið ganga yfir á næstu klukkustundum. Eldingarnar koma úr skúraskýjum sem geta myndast í óstöðugu lofti þegar sól hitar yfirborð landsins. Það hefur verið steikjandi hiti í uppsveitunum í dag, en hæsti hiti á landinu í dag var 25,4°C kl. 15:00 á Hjarðarlandi í Biskupstungum.
Á meðfylgjandi korti má sjá rauða punkta þar sem eldingar hafa mælst núna seinnipartinn. Eldingarnar eru að mælast fyrir norðan Úthlíð í Biskupstungum en þar hafa verið „þvílík læti“ seinni partinn, samkvæmt heimildarmönnum sunnlenska.is.
Nánar má lesa um viðbrögð við eldingum á vefsíðu Almannavarna: https://www.almannavarnir.is/natturuva/eldingar/