Eins og alþjóð veit tók fjögurra vikna samkomubann vegna COVID-19 í gildi á Íslandi í gær. Suðurland er vinsæll áningarstaður fyrir ferðamenn og mun bannið án efa hafa mikil áhrif á rekstur veitingastaða og fyrirtækja á svæðinu.
Þar á meðal er Kaffi Krús á Selfossi sem hefur verið gífurlega vinsæll veitingastaður bæði hjá ferðamönnum og heimamönnum.
Sætum fækkað um helming
„Samkomubannið mun auðvitað hafa mikil áhrif á Kaffi Krús eins og aðra samkomustaði. Við höfum tekið út nokkur borð sem ekki má setjast á og breytt fjögurra manna borðum í tveggja manna þannig að sætum hefur fækkað um næstum helming,“ segir Tómas Þóroddsson, eigandi Kaffi krúsar, í samtali við sunnlenska.is.
Starfsfólkið mjög meðvitað
„Við byrjuðum fyrir um tíu dögum síðan að sótthreinsa alla snertifleti mikið oftar og extra vel. Nú höfum við fjarlægt allt aukadót af borðum eins og t.d. kertastjaka sem fólk fer alltaf að fikta í. Eins höfum við tekið súpu dagsins sem var í sjálfsafgreiðslu niður þannig að kokkurinn sér um að ausa. Þegar komið er inn á Krúsina blasir við tilkynning um að matseðil megi finna á netinu og fólk hvatt til að nota matseðilinn í gegnum símann,“ segir Tómas.
„Starfsfólkið hjá mér er rosalega meðvitað um stöðuna og fer varlega, en eins og ég hef sagt við starfsfólkið: Tökum þessari veiru alvarlega en ekki panika,“ segir Tómas.
Meiri áhersla á sóttan mat
Tómas segir að þau á Kaffi Krús munu leggja meiri áherslu á sóttan mat þannig að fólk geti haldið áfram að njóta góða matarins á Kaffi Krús þó að það borði ekki á staðnum. „Við byrjuðum í gær að bjóða upp á 15% afslátt á öllum matseðlinum ef þú sækir. Einnig eru í vinnslu fleiri aðgerðir til að auðvelda fólki að fá mat hjá okkur,“ segir Tómas.
„Um þessar mundir eru tíu ár síðan ég tók við Kaffi Krús. Það hefur auðvitað orðið gríðarleg breyting á rekstrinum til batnaðar og ótrúlega margir í dag sem vita hvað Kaffi Krús er. Ég hef verið heppinn með það að staðurinn er líka rosalega vinsæll hjá heimamönnum og hefur skiptingin verið um 50% heimamenn og 50% ferðamenn. Í dag vinna 30-38 starfsmenn hjá fyrirtækinu eftir árstíðum og þeir skila 20 ársverkum. Auðvitað eru erfiðir tímar framundan, en það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn og taka hvert skref af yfirvegun,“ segir Tómas að lokum.