Klukkan 17:24 í dag voru sjúkraflutningamenn frá HSU og björgunarsveitir í uppsveitum Árnessýslu boðaðar út vegna slyss við Háafoss, þar sem ferðamaður hafði hrasað og sennilega ökklabrotnað.
Þegar fyrstu bjargir kom á vettvang varð ljóst að sá slasaði var innarlega í gilinu, rétt við Háafoss, og erfitt yrði að koma honum út og upp, enda um þröngt einstigi að fara upp út gilinu.
Því voru allar björgunarsveitir í Árnessýslu kallaðar út, svo tryggt væri að nægur mannskapur væri til staðar ef bera þyrfti viðkomandi út úr gilinu og upp. Einnig var hópur Hálendisvaktarinnar í Landmannalaugum boðaður á svæðið.
Í kjölfarið var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út en hún gat ekki athafnað sig svo innarlega í gilinu og því þurfti að búa um hinn slasaða og bera hann fram í gilið. Þyrlan kom á svæðið um klukkan 19:40 í kvöld og eftir undirbúning var ferðamaðurinn hífður um borð og fluttur á sjúkrahús. Aðgerðum á staðnum lauk upp úr klukkan átta.