Þyrla sótti slasaðan göngumann

Hinn slasaði borinn um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar. Ljósmynd/Landsbjörg

Í dag barst hálendisvakt Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Landmannalaugum útkall vegna göngumanns sem hafði dottið á Bláhnúk skammt sunnan Landmannalauga.

Þegar hópurinn kom að var ljóst að erfitt yrði að bera viðkomandi frá slysstað vegna aðstæðna en þarna er bratt og algengt að göngufólk slasi sig á þessum slóðum.

Búið var um hinn slasaða á börum en í hóp hálendisvaktar eru tveir sjúkraflutningamenn og í gönguhópnum var einnig læknir. Óskað var eftir því við Neyðarlínuna að þyrla yrði boðuð á staðinn til að flytja hinn slasaða af vettvangi.

Á meðan þyrlan var á leið á vettvang var hinn slasaði fluttur í börum úr mesta brattlendinu niður á áreyrar nærri, þar sem þyrlan gat lent. Hinn slasaði var borinn um borð og fluttur til aðhlynningar á bráðamóttöku Landspítalans.

Fyrri greinHarmóníkutónar að Kvoslæk
Næsta greinKFR skoraði níu mörk