Eina starfhæfa þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út síðdegis í dag vegna vinnuslyss í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi.
Þar slasaðist einn maður og var hann fluttur með sjúkrabíl á Selfossflugvöll. Maðurinn var færður um borð í TF-GRO sem flaug með hann á Landspítalann. Þyrlan flaug frá Selfossi kl. 18:26 og lenti í Reykjavík rétt fyrir kl. 19:00.
Á meðan þyrlan var í útkallinu barst henni önnur hjálparbeiðni vegna umferðarslyss undir Ingólfsfjalli. Meiðsli þeirra sem þar voru á ferðinni voru minni en talið var í fyrstu og því ekki þörf á þjónustu þyrlunnar í því tilviki.
Fyrr í dag flutti þyrlan mann á sjúkrahús í Reykjavík sem slasaðist í öðru vinnuslysi í uppsveitum Árnessýslu.
Fréttin hefur verið uppfærð