„Hún Lexy mín er með rúmlega tveggja vikna hvolpa og tók ástfóstri við lambið. Hún vill bara hafa það hjá sér og hvolpunum.“
Þetta segir Stella Sólveig Pálmarsdóttir, tamningamaður á bænum Strandarhöfða í V-Landeyjum, en tíkin hennar gekk lambhrút sem fæddist í dag, miðvikudag, í móðurstað.
Lambið missti móður sína við fæðingu og fæddist auk þess andvana, en Auður Möller, bóndi á bænum, hnoðaði og blés í það líf. „Síðan var það drifið inn og í bað og það síðan þurrkað með hárblásara,“ segir Stella.
„Nýja“ móðir lambsins er 4 ára gömul Miniature Pinscher tík og er þetta í annað sinn sem hún eignast hvolpa.
„Miniature Pinscher hundar verða einungis 30 cm á hæð og 5-6 kg. Þannig að flest lömbin fæðast í svipaðri stærð eða stærri en Lexy,“ segir Stella.
„Lambið er ekki nógu frískt en var farið að standa upp áðan og farið að skila frá sér. Lexy er voða dugleg að þrífa það og þrífa upp eftir það. Það verður að koma í ljós hvort hrúturinn lifi nóttina af. Vonandi fer þetta bara vel,“ segir Stella að lokum.
Fullvaxnir Miniature Pinscher eru á stærð við lömb. Ljósmynd/Stella Sólveig Pálmarsdóttir