Tíkin fannst á Akureyri

Rottweilertíkin Chrystal sem numin var á brott frá Arnarstöðum í fyrrinótt fannst hjá eiganda sínum á Akureyri í gær. Brotist var inn á hundahótelið til að ná í tíkina.

Rannsókn lögreglu í gær leiddi í ljós að brotist var inn á hundahótelið á Arnarstöðum þar sem tíkin var í lögmætri vörslu lögreglu. Er leið á daginn var kominn grunur um að eigandi eða einhver honum tengdum hefði numið hundinn á brott.

Í framhaldi af þessum grun var leitað eftir úrskurði um húsleit á heimili eiganda tíkarinnar norður á Akureyri. Áður en úrskurður féll upplýstist að tíkin væri á heimili eiganda. Dómari hafnaði heimild til húsleitar á þeim forsendum að lögreglu hafi ekki tekist að sýna fram á að eigandinn tengdist hvarfi tíkarinnar.

Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Selfossi, segir málið vera í rannsókn þar sem lögreglumenn á Akureyri hafa verið til aðstoðar og lagt fram mikla vinnu.

Lögreglan telur miklu skipta vegna almannahagsmuna að tíkinni verið aftur komið sem fyrst í vörslu lögreglu. Fyrir liggur skapgerðarmat héraðsdýralæknis sem segir að tíkin sé hættuleg.

TENGDAR FRÉTTIR:
Rottweilertíkin numin á brott

Fyrri greinÓk ítrekað í burtu án þess að borga
Næsta greinÓk utan í bíl og hvarf á brott