Nýverið kom út bókin „100 heilsuráð til langlífis“ eftir Jóhönnu S. Hannesdóttur, þjóðfræðing í Stóru-Sandvík í Sandvíkurhreppi. Bókin inniheldur 100 ráð um það hvernig fólk getur bætt og lengt líf sitt en Jóhanna hefur haft áhuga á langlífi frá unga aldri.
Hún hefur einnig haldið úti heilsublogginu vanillaoglavender.is þar sem hún deilir uppskriftum að hollum og góðum mat, auk þess að deila þar ýmsum heilsufróðleik. Hennar helsta áhugamál er allt sem viðkemur heilsu og heilbrigðu líferni.
Jóhanna útskrifaðist með BA-gráðu í þjóðfræði síðastliðið vor. Hún segist hafa valið þjóðfræðina vegna þess að hún sé ein af þeim sem hafi áhuga á mörgum hlutum. „Þjóðfræðin er því fullkomin fyrir fólk sem er með vítt áhugasvið. Í þjóðfræðinni lærir maður ótal margt, eins og til dæmis um leiki barna, húmor, galdra, ævintýri, sviðslistir og margt fleira. Þjóðfræðin kennir manni að skoða samfélagið með öðrum gleraugum,” segir Jóhanna.
Síðastliðið vor hafði útgefandi samband við Jóhönnu eftir að hafa rekist á bloggið hennar og vildi gefa út bók með heilsuráðunum sem þar er að finna. Jóhanna segir að sumarið hafi farið í að skrifa bókina. „En hún var þó að mestu tilbúin í kollinum á mér þegar ég hóf að skrifa hana,” segir Jóhanna. Hún hafi í rúm tvö ár hugsað sér að gefa út heilsubók um efni sem getur bætt heilsu og lengt líf fólks.
„Ég pældi mikið í því af hverju sumir yrðu 100 ára en aðrir ekki. Til að ná háum aldri þarf heilsan að sjálfsögðu að vera í lagi,“ segir Jóhanna en margir í kringum hana hafa fengið krabbamein sem hefur aukið áhuga hennar á heilsu enn frekar.
Aðspurð um hvernig hafi gengið að safna saman ráðum í bókina segir Jóhanna það hafa gengið mjög vel. „Fyrir utan þann heilsugagnagrunn sem ég er komin með þá skoðaði ég langlífisrannsóknir en þær eru þó nokkrar í gangi víðsvegar í heiminum. Einnig skoða ég hverju langlífir einstaklingar þakka langlífi sitt,“ segir hún.
Jóhanna segir að flestir geti tileinkað sér heilsuráðin. „Sum ráðin hljóma kannski eins og almenn skynsemi í eyrum sumra, eins og að hreyfa sig eða að sofa nóg. En það er gott að hafa bók eins og þessa til að minna sig á þetta.“