Bæjarráð Árborgar fundaði með Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra í síðustu viku um byggingu nýs fangelsis.
Að sögn Elfu Daggar Þórðardóttur bæjarráðsmanns var það niðurstaða fundarins að bæjarráðið óskaði eftir gögnum frá ráðuneytinu um framkvæmdina eins og hún er áætluð núna.
Að sögn Elfu Daggar hefur bæjarráð mikinn áhuga á því að fá að koma sínum hugmyndum að varðandi hugsanlega stækkun fangelsins á Litla Hrauni þegar upplýsingar liggja fyrir. Er þess vænst að bæjarráð verði komið með gögnin í hendurnar í næstu viku.
,,Það er ekkert leyndarmál að við teljum þetta mál mikilvægt fyrir atvinnuuppbyggingu á svæðinu og ég tel að við eigum að gera okkar ýtrasta til þess að fá fangelsið á Litla Hraun,“ sagði Elva Dögg. Það kom fram hjá henni að vel gæti komið til greina að veita afslátt frá fasteigna- og gatnagerðargjöldum vegna framkvæmdarinar en hún sagði að bæjarráðsmenn hefðu orðið var við að Hólmsheiði væri fyrsti kostur hjá ráðherra. Þau teldu hins vegar ekki of seint að reyna að hafa áhrif á ákvörðunina. Elva taldi að það væri mikilvægt að báðir kostirnir, Hólmsheiði og Litla Hraun, væru í boði þegar farið væri í útboð sem er fyrirhugað á næstunni.
,,Það er augljóst að það er verulegur ávinningur af samrekstri, hvort sem litið er til yfirbyggingar, lóðar eða lagna. Það er því ekki augljóst að byggja fangelsið á nýjum stað. Þá teljum við að samgöngumálin verði að hugsa upp á nýtt enda ljóst að Suðurstrandarvegur kemur til með að breyta verulega samgöngum við Reykjanes sem skiptir einnig máli.