Til mikils að vinna að eiga vel uppalinn hund

Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir á Selási í Landssveit útskrifaðist á dögunum sem hundaþjálfari frá Starmark Academy í Texas í Bandaríkjunum.

Jóhanna hélt til Texas rétt fyrir áramót og útskrifaðist sem hundaþjálfari og -atferlisfræðingur í byrjun apríl. Hún kemur heim nú í byrjun vikunnar og ætlar strax að hella sér út í hundaþjálfun og námskeiðahald, en hún hefur opnað heimasíðuna allirhundar.is.

„Í náminu í Texas var farið ítarlega í atferli hunda og hvernig þeir læra, vísindamennina á bakvið aðferðirnar og mismunandi þjálfunaraðferðir svo eitthvað sé nefnt. Annað sem var kennt var meðal annars, almenn grunnhlýðni, “house manners” eða bara mannasiðir eins og ég kalla það, klikkerþjálfun, framkvæmd skapgerðarmats á hvolpum og fullorðnum hundum og hvernig maður aðstoðar fólk við val á hundi,“ segir Jóhanna.

Jóhanna á sjálf þrjá hunda; Magna, Texas og Morris, sem er fullþjálfaður björgunarhundur og hefur Jóhanna farið með hann í útköll frá árinu 2008. Í náminu í Texas var einmitt kennd leit og björgun, fíkniefnaleit og „nosework“ sem mætti útleggjast sem þefvinna á góðri íslensku. „Þetta er þó ekki tæmandi listi á því sem farið var í en námið var mjög yfirgripsmikið og mjög krefjandi,“ segir Jóhanna.

Þegar heim er komið hyggst Jóhanna fyrst og fremst bjóða upp á einstaklingsmiðaða þjálfun. „Þarfir hunda geta verið mjög mismunandi og mun ég reyna að finna í samráði við eiganda hvað hentar best. Sumum hundum hentar vel að vinna í hóp á meðan aðrir hundar þurfa einkatíma. Ég býð upp á grunnámskeið í hlýðni þar sem meðal annars verður farið yfir hælgöngu, innkall, skipanir á borð við sestu og leggstu svo eitthvað sé nefnt,“ segir Jóhanna sem hyggst einnig halda hópnámskeið síðar og verða þau auglýst með góðum fyrirvara.

„Persónulega er ég mikil áhugamanneskja um vinnuhunda og mun ég reyna eftir fremsta megni að bjóða upp á námskeið þar sem hundar fá að vinna. Það er margt spennandi í kortunum fyrir sumarið þó ekkert sé niðurneglt ennþá. En vonandi munu koma erlendir þjálfarar á vegum allirhundar.is áður en haustið skellur á.“

Jóhanna er baráttumanneskja fyrir bættri hundamenningu á Íslandi og hún segir að þar þurfi allir hundaeigendur að taka höndum saman.

„Góður og vel uppalinn hundur er góður félagsskapur og hefur jákvæð áhrif á sitt nærumhverfi og margar rannsóknir hafa sýnt fram á ótvíræða kosti þess að hafa hund sér við hlið. Það er því til mikils að vinna að eiga góðan og vel uppalinn hund. En til þess þarf eigandi að leggja metnað og vinnu í hundinn strax frá byrjun. Það að eiga vel uppalinn hund krefst vinnu og skuldbindingar alla ævi hundsins og vel þjálfaður hundur er heilbrigð sál í hraustum líkama,“ segir Jóhanna að lokum.

Heimasíðan allirhundar.is

Fyrri greinSprautunálar fundust á víðavangi
Næsta greinFéll ofan í lest á sanddæluskipi