Tilboð bárust í þrjár lóðir af sjö

Stekkholt 22 á Selfossi. Á síðustu öld var þar starfræktur gæsluvöllur. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þrír aðilar skiluðu inn tilboði í þrjár einbýlishúsalóðir á Selfossi sem Sveitarfélagið Árborg auglýsti fyrir skömmu. Engin tilboð bárust í fjórar lóðir á Eyrarbakka.

Þrjú tilboð bárust í Lágengi 10 þar sem lágmarksverð sveitarfélagsins var 11,3 milljónir króna. Þórður Ásmundsson átti hæsta tilboðið, 19,9 milljónir króna.

Gæðabygg sf átti einu tilboðin í Reyrhaga 8 og Stekkholt 22 og voru þau bæði yfir lágmarksverði. Gæðabygg bauð 12 milljónir í Reyrhaga 8 þar sem lágmarksverðið var 8,8 milljónir og tilboðið í Stekkholt 22 hljóðar upp á 30,8 milljónir en lágmarksverðið var rúmlega 23,4 milljónir króna.

Göturnar eru allar í grónum hverfum, á deiliskipulögðum svæðum og tilbúnar til afhendingar.

Lóðirnar á Eyrarbakka, sem engin tilboð bárust í, eru við Álfsstétt 1, Eyrargötu 2, Búðarstíg 18 og Nesbrú 2.

Mannvirkja- og umhverfissvið Árborgar mun nú fara yfir tilboðin og kalla eftir frekari gögnum.

Fyrri greinKúreki norðursins frumsýnd í Bíóhúsinu
Næsta greinUppskeruhátíð Alviðru á degi íslenskrar náttúru