Síðustu viku hefur Orkuveita Reykjavíkur verið að færa niðurrennslisveitu Hellisheiðarvirkjunar frá Gráuhnúkum að Húsmúla.
Aukið niðurrennsli við Húsmúlann hefur valdið smáskjálftavirkni þar síðustu daga að því er fram kemur í tilkynningu frá OR.
Um 270 jarðskjálftar mældust á svæðinu frá klukkan hálf sjö í gærkvöldi til klukkan hálf sjö í morgun. Stærsti skjálftinn mældist 2,7 á Richter en sárafáir skjálftar eru yfir 2 á Richter.
Rekstur jarðgufuvirkjunar Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði kallar á að vatni frá virkjuninni sé skilað aftur ofan í jarðlögin, niður fyrir grunnvatn. Í því skyni eru boraðar holur og er leitast við að finna sprungur í jarðlögunum sem taka á móti sem mestu vatni. Þegar góðar og víðar sprungur finnast geta þær tekið á móti gríðarlegu magni. Vatnið virkar þá eins og smurning og dregur þá úr viðnámi í berginu sem getur þá komið á hreyfingu með tilheyrandi smáskjálftum.
Mannvirkjum stafar ekki hætta af skjálftunum og starfsmenn Orkuveitunnar á svæðinu segjast vart verða þeirra varir.
Upphaflega stóð til að hafa niðurrennsli við Gráuhnúka, sem eru rétt við Hveradalabrekkuna. Þar reyndist jarðhiti hinsvegar svo mikill að til athugunar er að nýta jarðhitann þar til orkuframleiðslu. Nú stendur yfir mat á umhverfisáhrifum slíkrar nýtingar.
Við Hellisheiðarvirkjun standa yfir tvö rannsóknarverkefni tengd niðurdælingu. Markmið annars er að rannsaka hvort mögulegt er að binda koltvísýring í hinum basaltríku hraunlögum sem mynda berggrunninn á Hellisheiði. Hitt verkefnið snýr að fýsileika þess að blanda brennisteinsvetni úr útblæstri jarðgufuvirkjana affallsvetninu áður en því er dælt niður í jarðlögin. Bæði verkefnin eru enn á tilrunastigi. Niðurdæling vegna þeirra verkefna er ekki hafin. Því er of snemmt að segja til um árangur þeirra.