Tilkynnt um þrjú innbrot í Árnesþingi

Um helgina fékk lögreglan á Suðurlandi tilkynningu um þjófnað úr íbúðarhúsi í Hveragerði. Þjófnaðurinn átti sér stað á tímabilinu 26. til 30. janúar síðastliðinn.

Engin ummerki voru um innbrot svo ekki liggur fyrir hvernig þjófurinn komst inn í húsið. Ýmsum léttum munum var stolið eins og skartgripum, jólaskrauti og lyfjum. Málið er í rannsókn.

Frá því um miðjan janúar til loka mánaðarins var brotist inn í sumarhús við Úlfljótsvatn í Grafningi. Engu var stolið en tjón unnið við að spenna upp svalahurð.

Brotist var inn í veiðihús við Hlíðarvatn á tímabilinu 24. til 31. janúar. Þaðan var stolið leirtaui og búsáhöldum. Auk þess voru unnar skemmdir á sólarsellu. Húsið er í eigu Stangaveiðifélags Selfoss.

Þeir sem geta veitt upplýsingar um þessi innbrot og þjófnaði eru beðnir að hafa samband við lögreglu í síma 444 2010.

Fyrri greinÆstur maður skemmdi bíl
Næsta greinEkið á Husky á Austurveginum