Boxerhundarnir tveir sem drápu fjölda kinda í landi Þórðarkots við Eyrarbakka í síðustu viku höfðu verið týndir í tvo daga áður en þeir fundust í fjárhópnum.
Hundarnir drápu 37 kindur en auk þess eru margar kindur og lömb sár eftir árás hundanna en flestum er hugað líf. Hundarnir voru skotnir á færi á staðnum.
Að sögn Elísar Kjartanssonar, sem fer með rannsókn málsins hjá lögreglunni á Selfossi, höfðu eigendur hundanna, sem búa í Tjarnarbyggðinni nokkru norðan við svæðið, tilkynnt um að hundarnir væru týndir tveimur dögum áður en það uppgötvaðist að þeir hefðu ráðist á kindurnar.
Rannsóknin felur í sér hversu lengi árás hundanna á féð stóð yfir, en ljóst virðist að þeir voru ekki að koma beint heiman frá sér. „Það kann að hafa skipt máli í atferli þeirra að þeir höfðu verið að heiman,“ sagði Elís í samtali við Sunnlenska.
Rannsókn málsins stendur enn yfir og eru frekari skýrslutökur framundan.