Tillaga bæjarráðs Árborgar um tólf mánaða framlengingu á samningi um sorphirðu við Íslenska gámafélagið féll á jöfnum atkvæðum á bæjarstjórnarfundi í vikunni.
Í Árborg er nú unnið að stefnumótun í sorpmálum og á meðan unnið er að henni vildi D-listinn framlengja samning við Íslenska gámafélagið um 12 mánuði. Minnihlutinn taldi að nægjanlegur tími til að fara yfir framtíðarskipulag málaflokksins væru 8 mánuðir.
Bæjarráð samþykkti tillögu D-listans á síðasta fundi sínum en þegar kom að afgreiðslu málsins á bæjarstjórnarfundi í vikunni féll tillagan á jöfnum atkvæðum, 4-4.
Elfa Dögg Þórðardóttir, fulltrúi D-listans, vék af fundi við umræðu málsins vegna fjölskyldutengsla við fyrirtækið og þar sem enginn varamaður var til taks á fundinum voru fulltrúar meiri- og minnihlutans jafnmargir.
Helgi S. Haraldsson, fulltrúi B-lista, lagði fram bókun vegna málsins þar sem hann sagði m.a. að átta mánuðir sé nægur tími til að kanna hvort það borgi sig fyrir sveitarfélagið að sjá sjálft um sorphirðu eða bjóða hana út og semja við lægstbjóðanda. Kostnaður við málaflokkinn væri í kringum 100 milljónir á ári, þannig að um verulegar fjárhæðir sé að tefla.