Í Landbúnaðarháskólanum að Reykjum í Ölfusi eru nú gerðar tilraunir og rannsóknir á ræktun á byggi og grasi í Eyjafjallaösku.
Á Reykjum er nú ræktað bygg og vallarfoxgras í mismunandi blöndum af jarðvegi og ösku en hópur frá skólanum fór á öskufallssvæðið fyrr í vikunni og sótti ösku til tilraunarinnar.
„Það er mjög mikilvægt að gera þessa rannsókn til að geta svarað spurningum bænda,“ sagði Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskólans, í samtali við sunnlenska.is, en von er á fyrstu niðustöðum eftir tíu daga.
„Þarna fáum við t.d. samanburð á því hvernig sprettan er í hreinni ösku eða niðurplægðri. Auk þess getum við skoðað upptöku á flúor og eiturefnum hjá plöntunum. Bændur hafa leitað ráða hjá okkur, t.d. varðandi beitarlönd og gæði vatnsbóla þannig að þessar rannsóknir eru nauðsynlegar til að geta gefið bændum ráð.“