Sigurður Áss Grétarsson, forstöðumaður hafnasviðs Siglingastofnunar, segir að miðað við spár um veður og sjólag séu litlar líkur á því að Landeyjahöfn verði opnuð í vikunni.
Markmiðið er að ná sjö metra dýpi í innsiglingunni en það tekur tíma við erfiðar aðstæður og rysjótt tíðarfar. sigurður bendir á að ölduhæð við Landeyjahöfn hafi nær alltaf verið meiri en tveir metrar frá miðjum janúar.
Sigmar Jakobsen, skipstjóri Skandia, segir verkið tímafrekt þar sem mikil gosaska sé í höfninni. Efnið er fíngert og hluti af því fer út aftur með sjó. Þannig tók það á fjórðu klukkustund að fylla skipið í dag. Menn stefndu að því að klára annan farm fyrir myrkur þannig að dagsverkið næmi 800 rúmmetrum. Til að opna höfnina aftur þarf að fjarlægja rúmlega 3.000 rúmmetra í viðbót.
RÚV greindi frá þessu.