Nú er að ljúka flutningi á tækjum og birgðum röradeildar Set frá Reykjalundi á Selfoss.
Stjórnendur fyrirtækisins ákváðu fyrr á árinu að segja upp leigusamningi félagsins við SÍBS en Set hefur haldið úti starfsemi þar eftir kaup á röraframleiðslu Reykjalundar síðla árs 2009.
,,Viðvarandi samdráttur í eftirspurn innanlands og ný og krefjandi verkefni í útflutningi og erlendri starfsemi kalla á aðhald í rekstri og endurskipulagningu á framleiðslu okkar,” sagði Bergsteinn Einarsson, framkvæmdastjóri Set, í samtali við Sunnlenska.
Þessi flutningur á tækjum Reykjalundar á Selfoss markar tímamót í sögu plastiðnaðar á Íslandi því framleiðsla úr plasti að Reykjalundi hefur staðið í meira en hálfa öld eða frá árinu 1953.
Bergplast keypti umbúðaframleiðslu Reykjalundar 2009 og flutti tækin til Hafnarfjarðar. Að sögn Bergsteins er stefnt að því að efla framleiðslu á spiral vöfðum PE rörum ,,Weholit” fyrir ræsi og fráveitur sem Reykjalundur hefur framleitt undir tæknisamningi við finnska fyrirtækið KWH og á vegastikum og girðingarstaurum úr plasti.