Fyrsta úthlutun Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands var árið 2002 en síðan þá hefur sjóðurinn styrkt sunnlensk nemendaverkefni á hverju ári. Sjóðurinn var upphaflega stofnaður af Fræðsluneti Suðurlands en árið 2010 kom Háskólafélag Suðurlands inn sem samstarfsaðili.
Breytingar og uppfærsla
Þau tímamót urðu í sumar að Fræðslunetið ákvað að fela Háskólafélaginu reksturs sjóðsins og er hann nú því alfarið í umsjón félagsins. Að sögn Ingunnar Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Háskólafélagsins, felast ýmis tækifæri í þessari tilfærslu og því var ákveðið rýna ferlið og koma með tillögur að uppfærslum.
„Sú fyrsta fól í sér að útbúa umsóknarform inni á heimasíðu HfSu í því ljósi að samhæfa innsendar umsóknir og einfalda ferlið. Önnur uppfærsla fól í sér að útbúa lógó fyrir sjóðinn og gera upplýsingar um hann aðgengilegar á heimasíðu félagsins. Þriðja uppfærslan og líklega sú stærsta fól í sér að endurhugsa umsóknartímabilið með það fyrir augum að auðvelda nemendum að sækja um,“ segir Ingunn en frá og með næsta umsóknarfresti verður opið fyrir umsóknir til 5. janúar 2024 og styrkþegum tilkynnt um úthlutun í lok janúar. Eins og áður verður styrkþegum boðið til hátíðarfundar Vísinda- og rannsóknarsjóðs þar sem þeir veita styrknum viðtöku úr hendi forseta Íslands.
Auk áðurnefndra breytinga hafa nokkrir nýir styrktaraðilar komið inn í hópinn og segir Ingunn að slíkt skipti sjóðinn gríðarlegu máli og kann Háskólafélagið þeim miklar þakkir.
42 verkefni á 20 árum
Frá upphafi sjóðsins hafa 42 verkefni fengið styrk frá sjóðnum. Verkefnin eru af öllum toga og geta verið allt frá BA/BS verkefnum til doktorsverkefna. Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir í sjóðinn og hvetur Háskólafélag Suðurlands alla nemendur sem eru að vinna að lokaverkefnum sem hafa gildi fyrir sunnlenskt samfélag, að kynna sér sjóðinn og meta hvort þeirra verkefni eigi þar erindi. Hægt er að kynna sér eldri verkefni á heimasíðu Háskólafélags Suðurlands.