Tímamót voru í starfi Miðflokksins miðvikudaginn 13. desember síðastliðinn þegar fyrsta kjördæmafélag flokksins, Miðflokksfélag Suðurkjördæmis var stofnað á Selfossi.
Mikill fjöldi sótti stofnfundinn víða að úr kjördæminu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og Birgir Þórarinsson, þingmaður Suðurkjördæmis ávörpuðu fundinn.
Í fréttatilkynningu frá Miðflokknum segir að hlutverk kjördæmafélagsins nú í upphafi verði að styðja við félagsstarf innan Suðurkjördæmis, aðstoða við stofnun staðarfélaga og ýta úr vör í samráði við félagsmenn í kjördæminu undirbúningi fyrir sveitarstjórnarkosningar sem fram fara vorið 2018. Þeir sem hafa áhuga á því að taka þátt í málefnastarfi flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2018 geta nú haft samband við stjórn félagsins í Suðurkjördæmi.
Stjórn og varamenn félagsins skipa Einar G. Harðarson formaður, Óskar H. Þórmundsson, Sverrir Ómar Victorsson, Margrét Jónsdóttir, Herdís Hjörleifsdóttir, Sigrún Gísladóttir Bates varaformaður, G. Svana Sigurjónsdóttir og Sæmundur Jón Jónsson.