Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirritaði í dag samninga við sjö landshlutasamtök sveitarfélaga um ráðningu verkefnisstjóra sem leiða mun undirbúning að stofnun svæðisbundins farsældarráðs í hverjum landshluta fyrir sig.
Með samningunum hafa öll sveitarfélög landsins skuldbundið sig til þess að hefja vinnu við að hrinda 5. grein laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna í framkvæmd. Markmiðið er að börn og foreldrar geti fengið aðgang að samþættri þjónustu við hæfi, án hindrana.
„Við höfum átt ótrúlega gott samstarf við sveitarfélögin, bæði Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök, sveitarstjórnarfólk og bæjarstjóra allt í kringum landið, bæði við ritun þessara laga en ekki hvað síst við innleiðingu þeirra. Þetta er langtímaverkefni. Nú erum við að stíga næsta skref, að láta nýju farsældarsvæðin virka eins og þau eru hugsuð þar sem að ólíkir aðilar vinna saman í hverjum og einum landshluta að því að bæta hag barna og ungmenna,“ sagði Ásmundur Einar við undirritun samninganna.
Samningurinn er byggður á niðurstöðum starfshóps mennta- og barnamálaráðuneytisins um samhæfða svæðaskipan í málefnum barna. Að mati starfshópsins voru mikil tækifæri fólgin í því að starfrækja farsældarráðin eftir gildandi landshlutaskiptingu sveitarfélaga enda þau vön að vinna á þeim grunni.
Samningurinn er gerður til tveggja ára og áætlað er að fyrir lok samningstímans hafi farsældarráð landshlutans verið kallað saman og undirbúningur vinnu við fyrstu áætlun um svæðisbundna forgangsröðun aðgerða í þágu farsældar barna hafin.