Uppbygging og gjaldtaka á áfangastöðum ferðamanna verður aðal umræðuefnið á þingi Markaðsstofu Suðurlands í næstu viku.
Slík gjaldtaka hefur í auknum mæli verið rædd innan ferðaþjónustunnar og á meðal sveitarstjórnarmanna vegna aukins ágangs ferðamanna að vinsælum ferðamannastöðum.
Davíð Samúelsson framkvæmdastjóri Markaðsstofunnar segir það sína skoðun að Sunnlendingar séu ekki að fá nægar tekjur af þeim fjölda ferðamanna sem heimsækir áfangastaði á Suðurlandi þar sem þeir séu þar í flestum tilfellum í dagsferðum úr Reykjavík á vegum ferðaskipuleggjenda þar.
„Umræðan verður að fara fram, og inn í hana fléttast að með gjaldtöku sé hægt að auka við upplifun og þjónustu í staðinn,“ segir Davíð. Sem dæmi nefnir Davíð að á fáeinum árum hafi fjöldi gesta í Landmannalaugum farið úr 30 þúsund á ári í 100 þúsund. „Það má ekki bíða lengur með að laga þar alla aðstöðu svo svæðið beri ekki skaða af,“ segir Davíð sem vill að það sé á meira forræði heimamanna að reka slíka áfangastaði. „Og til að ernda svæðið þarf fjármagn,“ segir Davíð.
Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu